Hotel Fljótshlíð

Veiði

Unnt er að kaupa leyfi til að skjóta gæs í landi Smáratúns. Gæsin sækir mjög í tún og akra á aurunum fyrir neðan Fljótshlíðina þegar kólna tekur á haustin.

Veiðimenn þurfa að framvísa gildu skotvopnaleyfi við kaup á veiðileyfi að Smáratúni.

Eystri- og Ytri-Rangá teljast saman einhver mesta laxveiðistöð landsins og byggist fengsældin á gífurlegum gönguseiðasleppingum, sem hófust á níunda áratugnum og hafa færst verulega í vöxt. Smáratún er í þægilegri fjarlægð frá ánum og því tilvalinn gististaður fyrir veiðimenn.

Þverá í Fljótshlíð er fjögurra stanga á. Veiðisvæði Þverár er um 26 kílómetra langt. Innst í Fljótshlíðinni er hún samansafn fárra lækja, en vex smá saman þar sem hún rennur út Hlíðina og við bætast ótal lækir og lænur. Áin rennur síðan á Þveráraurum, sunnan Fljótshlíðarvegar og við blasir fögur og sögufræg Fljótshlíðin, Eyjafjallajökull og Þríhyrningur.  Ný brú er yfir ána á þjóðvegi 1 skammt austan við Hvolsvöll.  Neðsta veiðisvæðið er þar fyrir neðan og á Rangárvöllum rennur Eystri-Rangá út í Þverá og síðan Ytri-Rangáin.  Þegar þessar þrjár laxveiðiár eru saman komnar heita þær Hólsá og eiga þær sameiginlegan ós niður við sjó.

Þverá rennur spölkorn frá bænum. Í göngufæri frá bænum er einnig tjörn með silungsveiði, veiðileyfi í tjörnina er hægt að kaupa í Hótel Fljósthlíð.