Hotel Fljótshlíð

Hestar

Að Smáratúni er starfrækt hestaleiga.

  •          Gleðiferð

Boðið er uppá styttri eða lengri reiðtúra um nágrennið. Hér er hægt að finna hesta við allra hæfi og ávallt er riðið undir leiðsögn. Frábær skemmtun fyrir jafnt unga sem aldna. Hver sem er getur upplifað íslenska hestinn í þessum ferðum, engrar reynslu er krafist.

  • Klukkutími 6.750.- kr. á mann
  • Dímonarferð (Reiðtúr, nesti og ganga)

Lagt er af stað frá Smáratúni klukkan 12:00 alla daga. Riðið er niður Markarfljótsaurana og að Stóra Dímon þar sem er áð og borðað nesti. Ganga á fjallið tekur um 20 mínútur, þaðan er gott útsýni inn í Þórsmörk, yfir Vestmannaeyjar og Fljótshlíðina. Riðið er til baka og áætluð heimkoma er klukkan 15:00. Hentar frekar fólki sem hefur setið hest áður.

Nauðsynlegt er að panta fyrirfram í ferðirnar.

  • Þríhyrningsferð (Reiðtúr, nesti, ganga) Dagsferð

Lagt er af stað frá Smáratúni og riðið í gegnum Tunguskóg og að Vatnsdal. Þar sprettum við af hestunum og leggjum upp í göngu upp á Þríhyrning. Af toppi Þríhyrnings er stórfenglegt útsýni yfir Fljótshlíðina, til Vestmannaeyja, yfir Eyjafjallajökul, til Heklu og Vatnsdalsvatn.

  • Fjallabak (4ra daga ferð)

Gleymdu hinu daglega amstri og láttu sólina segja þér hvað klukkan er. Komdu með okkur að fjallabaki í hestaferð um ósnerta íslenska náttúru. Við leggjum af stað frá Smáratúni og við förum ótroðnar slóðir um hálendið. Í þessari ferð gistum við í fjallaskálum, að Fossi, í Emstruskála og í Felli og njótum þess að vera fjarri siðmenningunni. Fullt fæði og svefnpokagisting í fjallaskálum innifalið.

  •          Njáluferð á hesti

Þriggja daga dagskrá – Lágmark 5 þátttakendur

Dagur I

Mæting að Smáratúni í Fljótshlíð klukkan 17:00. Þeir sem eiga hesta koma með þá um þetta leyti og þeir sem leigja hesta prófa þá og fá hesta við sitt hæfi. Þá er boðið uppá kvöldverð og kynningu á Njáls sögu og tilhögun ferðarinnar.

Dagur II

Morgunverður hefst klukkan 09:00. Ferðalangar hittast við hestagerði að morgunverði loknum og þá verður lagt af stað frá Smáratúni. Riðið verður fram Fljótshlíð, upp hjá sýslumannssetrinu forna að Vatnsdal, fram hjá Hrappstöðum að Gunnarssteini.

Frá Gunnarsstein liggur leiðin upp að Þorleifsstöðum en þar verður nestað og fjallað stuttlega um sögusviðið. Frá Þorleifsstöðum liggur leiðin um Þríhyrningshálsa um slóðir Flosa Þórðarsonar, Þorkels Bundinfóts og Starkaðar. Þá verður riðið niður hjá Lambalæk og niður í Fljótshlíðar. Komið verður við í hofi Jóns Ólafssonar við Kaffi Langbrók. Kvöldverður hefst klukkan 20:00 að Smáratúni og undir kvöldverði verður fjallað um skáldin, Njálu og umhverfið.

Dagur III

Morgunverður hefst klukkan 09:00. Ferðalangar hittast við hestagerði að morgunverði loknum og riðið verður frá Smáratúni að Hlíðarenda þar sem söguhetjan, Gunnar Hámundarson, bjó með konu sinni Hallgerði Langbrók. Frá Hlíðarenda verður riðið að Rauðaskriðum og vígi Þráins. Þá verður riðið að Gunnarshólma til fylgdar við Gunnar Hámundarson og Jónas Hallgrímsson, að Gunnarshólma verður nestað.

Loks verður riðið aftur heim að Smáratúni þar sem ferðalangar fá kaffiveitingar og eru ferðalok áætluð klukkan 17:00.

Höfundur og leiðsögumaður er Lárus Bragason, sagnfræðingur.

Aðstaða fyrir hópa

Smáratún er tilvalinn áningarstaður fyrir hestamenn á ferðalagi. Að Smáratúni eru beitarhólf í ýmsum stærðum, hestarétt, -gerði. Næstu fjallaskálar inn af Fljótshlíð eru að Felli, Einhyrningsflötum og svo að Emstrum.

Verðskrá

500 kr fyrir hvern hest